Ferill 439. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 889  —  439. mál.




Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um alþjóðlegar skuldbindingar og frumvarpsgerð.


     1.      Hvaða verklagsreglur gilda við frumvarpsgerð í ráðuneytinu þegar ákvarðað er hvað eigi að koma fram í þeim kafla greinargerðar stjórnarfrumvarps er fjallar um samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar?
    Samkvæmt 8. gr. samþykktar ríkisstjórnar um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa frá 24. febrúar 2023 skal í greinargerð með frumvarpi fjalla um samræmi þess við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar enda gefi frumvarpið tilefni til slíks mats. Í 1. gr. samþykktarinnar segir að kynna skuli áform um lagasetningu og frummat á áhrifum hennar á fundi ráðuneytisstjóra allra ráðuneyta í tæka tíð áður en byrjað er að semja frumvarp. Í 2. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að þessi áform um lagasetningu skuli sett fram á stöðluðu eyðublaði. Á eyðublaðinu þarf að greina frá því ef áformin koma inn á svið þjóðréttarskuldbindinga. Komi áform um lagasetningu inn á alþjóðlegar skuldbindingar á málefnasviði annarra ráðuneyta er tilefni fyrir þau ráðuneyti að benda á það í innra samráði.
    Við gerð lagafrumvarps er stuðst við handbók um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa, sem gefin var út af forsætisráðuneyti og dómsmálaráðuneyti árið 2007. Samkvæmt 7. lið I. kafla handbókarinnar hvílir sú þjóðréttarlega skylda á íslenskum stjórnvöldum að gæta að samræmi laga og alþjóðlegra skuldbindinga. Einnig segir að í almennum athugasemdum með frumvarpi sé eðlilegt að rekja eftir því sem tilefni er til alþjóðlegar skuldbindingar á viðkomandi sviði, auk þess sem rétt sé að geta þess mats sem fram hefur farið á samræmi frumvarpsins við alþjóðlegar skuldbindingar. Á innri vef Stjórnarráðsins er einnig að finna leiðarvísi (fasahjálp) um undirbúning og vinnslu stjórnarfrumvarpa sem gefinn er út af dómsmálaráðuneyti.

     2.      Hvernig metur ráðuneytið það hvort tilefni sé til þess að skoða tiltekinn alþjóðasamning í þeirri vinnu og þá hvort tilefni sé til þess að minnast á niðurstöður þeirrar skoðunar í greinargerð frumvarps?
    Þeir sem vinna að gerð viðkomandi frumvarps líta til efnis þess við mat á því hvort það samræmist alþjóðlegum skuldbindingum Íslands. Hafa þarf í huga alþjóðlegar skuldbindingar í öllu ferli við gerð frumvarps til að gæta að því að það samræmist skuldbindingum Íslands. Almenna reglan er þá sú að víðtækt samráð er viðhaft í ferli frumvarpsgerðar og geta þá önnur ráðuneyti, stofnanir, félagasamtök, fyrirtæki o.fl. bent á ýmis atriði, þ.m.t. alþjóðlegar skuldbindingar.

     3.      Hvernig er vinnulag ráðuneytisins varðandi hvort og þá hvernig það skoðar samræmi frumvarpa sinna við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem lagt er til að verði lögfestur á kjörtímabilinu, sbr. stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar?
    Vísað er til svars við 1. og 2. tölul. fyrirspurnarinnar. Vinnulag ráðuneytisins við gerð lagafrumvarpa er eins hvað varðar tengsl frumvarps við alþjóðlegar skuldbindingar, óháð því hvaða alþjóðlegu skuldbindingar um ræðir hverju sinni. Þegar um er að ræða alþjóðlegar skuldbindingar sem eru á málefnasviði annars ráðuneytis en umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis gefur það þó tilefni til sérstaks samráðs eða samvinnu við það ráðuneyti við gerð frumvarps.